Laus störf í MÍ

15 jún 2018

Laus störf í MÍ

Eftirtalin störf eru laus til  umsóknar við Menntaskólann á Ísafirði.

  • Umsjónarmaður fasteigna 100% staða
  • Heimavistarvörður 25% staða
  • Stuðningsfulltrúi 50% staða
  • Aðstoðarskólameistari 100%

 

Umsjónarmaður fasteigna (húsvörður) hefur umsjón með þeim fasteignum sem Menntaskólinn á Ísafirði leigir undir starfsemi sína. Hann gerir áætlanir um viðhaldsþörf húseigna og nýframkvæmdir í samráði við skólameistara, annast umsjón og eftirlit með viðhaldsframkvæmdum og er tengiliður á milli skólans, verktaka, Ríkiseigna og Framkvæmdasýslu ríkisins.

Húsvörður þarf að hafa góða skipulagshæfni, vera snyrtilegur og lipur í samskiptum. Einnig að hafa ríka þjónustulund og drifkraft og frumkvæmi til að leysa þau verkefni sem falla undir starfið. Æskilegt er að húsvörður hafi iðnmenntun sem nýtist í starfi.

Um er að ræða fullt starf. Umsækjandi þarf að geta hafið störf þann 1. nóvember næstkomandi. Laun húsvarðar eru samkvæmt kjarasamningi SFR og stofnanasamningi MÍ.

 

Heimavistarvörður er til staðar fyrir nemendur sem búa á heimavist og ber ábyrgð á að heimavistarreglum sé framfylgt. Umsjónarmaður heimavistar fær afleysingu aðra hvora helgi, eða eftir samkomulagi. Ekki er gert ráð fyrir auka næturvörslu aðfaranætur laugardaga og sunnudaga.

Um er að ræða 25% starf. Umsækjandi þarf að geta hafið störf þann 1. nóvember næstkomandi. Laun eru samkvæmt kjarasamningi SFR og stofnanasamningi MÍ. Umsjónarmaður þarf starfsins vegna að vera búsettur í íbúð á heimavist MÍ.

 

Stuðningsfulltrúi aðstoðar kennara við að sinna einum eða fleiri nemendum sem þurfa sérstaka aðstoð. Starf stuðningsfulltrúa miðar að því að auka færni og sjálfstæði þessara nemenda, félagslega, námslega og í daglegum athöfnum.

Stuðningsfulltrúi skal hafa menntun og/eða reynslu sem nýtist í starfi, vera lipur í samskiptum og sýna gott viðmót.

Um er að ræða 50% starf. Umsækjandi þarf að geta hafið störf þann 15. ágúst næstkomandi. Laun stuðningsfulltrúa eru samkvæmt kjarasamningi SFR og stofnanasamningi MÍ. Starfið felst í stuðningi og aðstoð við nemendur á starfsbraut.

Í anda jafnréttisstefnu MÍ eru konur jafnt sem karlar hvött til að sækja um stöður við skólann. Umsóknum skal skila fyrir 6. júlí 2018 til Hildar Halldórsdóttur skólameistara á netfangið hildur@misa.is  sem gefur einnig nánari upplýsingar um störfin í síma 450-4401 eða 8990538. Sakavottorð skal liggja fyrir við ráðningu.

Umsóknir gilda í a.m.k. sex mánuði ef staða losnar á ný. Á heimasíðunni http://misa.is er að finna upplýsingar um skólann og starfsemi hans.

 

Aðstoðarskólameistari 

Menntaskólinn á Ísafirði auglýsir eftir aðstoðarskólameistara í 100% stöðu frá og með 1. ágúst 2018. Samkvæmt 14. gr. laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, skal aðstoðarskólameistari hafa starfsheitið framhaldsskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi. Aðstoðarskólameistari er staðgengill skólameistara og vinnur með honum að daglegri stjórnun og rekstri skólans.

Launakjör eru í samræmi við gildandi kjarasamning fjármálaráðherra við viðkomandi stéttarfélag og stofnanasamning skólans.  Aðstoðarskólameistari er ráðinn til fimm ára í senn. Athygli er vakin á 5. gr. reglugerðar nr. 1100/1997 þar sem segir að endurráðning sé heimil að undangenginni auglýsingu.

Leitað er eftir einstaklingi með góða færni í mannlegum samskiptum og ríkan áhuga á að vinna með ungu fólki.  Þá þarf viðkomandi að hafa góða leiðtoga- og skipulagshæfileika, vera fær um taka frumkvæði og vinna sjálfstætt.

Ekki er nauðsynlegt að sækja um á sérstökum eyðublöðum en með umsókn þarf að leggja fram gögn um menntun, starfsreynslu og meðmælendur. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun hefur verið tekin um ráðningu. Umsóknir gilda í a.m.k. sex mánuði ef staðan losnar á ný.

Í anda jafnréttisstefnu MÍ eru konur jafnt sem karlar hvött til að sækja um stöður við skólann. Umsóknum skal skila fyrir 9. júlí 2018 til Hildar Halldórsdóttur skólameistara á netfangið hildur@misa.is  sem gefur einnig nánari upplýsingar um störfin í síma 450-4401 eða 8990538. Sakavottorð skal liggja fyrir við ráðningu.

 

 Skólameistari

 

Til baka